154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[12:32]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að greinargerðin er nokkuð ítarleg en þó ekki nægilega til þess að ég áttaði mig á hvað væri um að ræða þarna þannig að ég þurfti að skoða gögn sem var vísað í. Þá skilst mér að þetta snúi jafnvel að rafeyri og sýndar„tókan“ og eignar„tókan“ og einhverju svona. Ég held að þessu máli þurfi að fylgja betri greinargerð á einfaldri og skýrri íslensku þannig að þetta skiljist þokkalega. En það sem maður hefur áhyggjur af er að hérna koma þessi mál af færibandinu þegar ég tel að önnur og stærri mál séu nauðsynlegri. Hér gerist það að upp kemur mál þar sem streymdu 28 milljarðar út úr Landsbankanum og ráðamenn eru hér bara að klóra sér í hausnum og vísa hver á annan. Svo koma svona mál inn sem eiga varla við um íslenskt samfélag. Þannig að ég nota þetta tækifæri hér í ræðustól til að skora á menn að setja einmitt þau mál í forgang og hvet hæstv. fjármálaráðherra til að láta verkin tala í ráðuneytinu þannig að ráðamenn í Landsbankanum fari að þeirri eigandastefnu sem hefur verið samþykkt og þeir sem hafa ekki gert það verði látnir sæta ábyrgð. Það skiptir auðvitað miklu máli. Ef menn brjóta í bága við þá stefnu sem eigendur hafa sett upp og eru ekki látnir sæta neinni ábyrgð, hvaða skilaboð eru það?